Dagur gegn einelti Líkt og undanfarin ár hafa leik- og grunnskólar, frístundaheimili og frístundamiðstöðvar notað 8. nóvember til að beina athyglinni að því alvarlega ofbeldi sem einelti er.  Því miður hafa allt of mörg börn þurft að þola meiðandi, særandi og niðurlægjandi hegðun af hendi annarra sem valda þeim vanlíðan, jafnvel árum saman. Það er eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar að taka á þessum vanda og tryggja öllum börnum öruggt og þroskavænlegt umhverfi.

Á sumum starfsstöðum hafa myndast hefðir þann 8. nóv., aðrar starfsstöðvar brydda upp á margvíslegum nýjungum. Árlega leggur skrifstofa skóla- og frístundasviðs sitt af mörkum í baráttunni við einelti með því að vera með sérstakar áherslur sem starfsmenn skóla- og frístundasviðs eru hvattir til að nýta í tilefni dagsins.

Að þessu sinni eru áherslurnar eftirfarandi:

BJÖLLUHRINGING Í GRUNNSKÓLUM

Allir grunnskólar borgarinnar hafa verið hvattir til að hringja skólabjöllum kl. 13 til að vekja athygli á deginum og tilgangi hans.

ALLIR VINIR

Við vekjum sérstaka athygli á forvarnarverkefninu ALLIR VINIR sem Vanda Sigurgeirsdóttir hefur þróað í samstarfi við starfshóp um vinsamlegt samfélag. Efnið var prófað í tveimur leikskólum í Reykjavík, Hofi og Laugasól, ásamt Laugarnesskóla og frístundaheimilinu Laugarseli. Um er að ræða forvörn gegn einelti með því að efla félagsfærni, vináttu og samvinnu.

AUKIN ÁHERSLA Á HLUTVERK EINELTISTEYMA

Gátlisti um einelti hefur verið uppfærður á vefnum VINSAMLEGT SAMFÉLAG með áherslu á aukið hlutverk eineltisteyma við inngrip og úrvinnslu eineltismála. Við viljum hvetja starfsstaði til að yfirfara verklaga sitt og samstarf í allri vinnu gegn einelti með hliðsjón af þessum gátlista.

MYNDBÖND OG FLEIRI VERKEFNI

Á vef Vinsamlegs samfélags má finna myndbönd um einelti sem unnin voru með börnum og unglingum, sem tilvalið er að horfa á í starfinu og ræða efni þeirra. Myndbönd 2014 og Myndbönd 2015

Á vef Vinsamlegs samfélags er einnig að finna fleiri hagnýt verkefni.

Fyrir hönd starfshóps um Vinsamlegt samfélag,

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.