Valgreinar

Valgreinar í 9. og 10. bekk

Í  Aðalnámskrá grunnskóla er gert ráð fyrir að nemendur í 8. - 10. bekk grunnskóla eigi kost á að velja hluta námsgreina sinna.  Samkvæmt námskránni eru skyldunámsgreinar/námssvið:  Íslenska, enska, danska, stærðfræði , íþróttir, list- og verkgreinar, náttúrugreinar og samfélagsgreinar.

Í Aðalnámskránni segir:

Valgreinar eru hluti af skyldunámi. Í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla skal nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið sem svarar allt að fimmtungi námstímans. […] Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.

Val í námi skal miða að skipulegum undirbúningi fyrir nám í framhaldsskóla og taka mið af undirbúningi fyrir bóknám, starfsmenntun, list- og tækninám. Í þessu skyni gefst nemendum kostur á að dýpka þekkingu sína á þeim námssviðum eða innan lögboðinna námsgreina. Einnig eiga nemendur að geta valið um viðfangsefni sem einkum miða að því að víkka sjóndeildarhring þeirra, stuðla að aukinni lífsfyllingu eða dýpka þekkingu, leikni og hæfni sína á tilteknum sviðum í samræmi við áhuga þeirra (bls. 50).

Í 9. bekk velja nemendur 2-4 greinar en 4-6 í 10. bekk. Nemendur fá valgreinabæklinga á vorönn þar sem námsgreinum er lýst og valið útskýrt nánar.
Mikilvægt er að nemendur velji valgreinar í samræmi við áhuga og hæfileika.  Einnig þurfa þeir að hafa í huga hvert þeir stefna að loknu skyldunámi.