Gegn einelti á vinnustað

Áætlun Réttarholtsskóla um vinnu gegn einelti á vinnustaðnum

1

Einelti er endurtekin, ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Hér er ekki átti við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann kann að rísa milli starfsmanna enda leiði slíkur ágreiningur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.

 

2

Einelti á ekki að eiga sér stað í Réttarholtsskóla og ber öllum starfsmönnum að hafa þessa undantekningalausu reglu að leiðarljósi í samskiptum sínum við samstarfsfólk.

 

3

Þeim sem verða fyrir einelti eða hafa grun um eða vissu fyrir að starfsmaður sé lagður í einelti ber skylda til að tilkynna það skólastjóra, trúnaðarmanni eða ef svo ber undir eineltisteymi Menntasviðs Reykjavíkurborgar. Upplýsingar um eineltisteymi Menntasviðs er að finna  á slóðinni  http://innri.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-48/85_view-1426/ Berist tilkynning til trúnarmanns ber honum að gera öðrum hvorum framangreindra aðila viðvart.

 

4

Berist skólastjóra vitneskja um einelti á meðal starfsmanna ber honum að bregðast við og tryggja að málið verði rannsakað án tafar. Skólastjóri ákveður í samráði við trúnaðarmann stéttarfélags þolanda hvort hann annast rannsóknina sjálfur eða leitar til eineltisteymis Menntasviðs.

Rætt er einslega við meintan þolanda og meintan geranda (viðkomandi taka einhvern með sér í viðtalið ef þeir kjósa), vitni kölluð til þyki til þess ástæða. Hugað er að líðan meints þolanda og meints geranda og athugað hvort ástæða er til að óska eftir sálfræðiaðstoð.

Ef í ljós kemur að um einelti hafi verið að ræða fær gerandi munnlega áminningu um að breyta framkomu sinni.

 

5

Skólastjóra ber að fylgja því eftir að einelti sem upp hefur komið endurtaki sig ekki. Skrifleg áminning skv. samþykktum Reykjavíkurborgar um réttindi og skyldur starfsmanna borgarinnar og uppsögn eru meðal þeirra viðbragða sem skólastjóri kann að grípa til ef allt um þrýtur.

 

6

Að öðru leyti vísast til reglugerðar nr. 1000 um aðgerðir gegn einelti á vinnu stað.

15. nóv. 2008