Fundargerð 22.mars 2011

Skólaráðsfundur 22.03.2011 kl. 15:00

Mætt eru: Hilmar, Guðmundur, Sigrún, Hrönn, Emil Gauti, Ása Lind, Elsa, Kristín og fundarritari er Jón Pétur

HH fer yfir starfsáætlun sem send var í tölvupósti, engar ábendingar komu vegna hennar. HH ítrekar við fundarmenn að senda honum ábendingar ef einhverjar eru.

HH fer yfir skóladagatal Réttarholtsskóla 2011-2012, sem sent var í tölvupósti, og það er samþykkt.

HH les tillögu tvö frá menntaráði Reykjavíkur um sameiningu yfirstjórnar Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla og flutning unglingadeildar Hvassaleitisskóla yfir í Álftamýrarskóla eða Réttarholtsskóla. Tillagan rædd og svohljóðandi umsögn samþykkt:

Umsögn skólaráðs Réttarholtsskóla um tillögu 2 frá starfshópi um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, um sameiningu Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla

Skólaráð Réttarholtsskóla tekur einkum afstöðu til þess hluta tillögunnar sem snertir Réttarholtsskóla beinlínis. Ráðið vill þó lýsa þeirri almennu skoðun sinni að í sérhverjum skóla eigi að vera skólastjóri í fullu starfi.

Skólaráð Réttarholtsskóla telur þá hugmynd að unglingar í núverandi skólahverfi Hvassaleitisskóla eigi val um Réttarholtsskóla eða Álftamýrarskóla vel framkvæmanlega.  Skólaráðið vill þó láta koma fram, að fari svo að allir nemendur Hvassaleitisskóla velji Réttarholtsskóla, kunna að skapast þrengsli í skólanum á einhverjum tímapunkti. Hér yrði þó trauðla um óyfirstíganlegan vanda að ræða.

Ráðið bendir á að þeir nemendur sem hér um ræðir yrðu þeir einu í borginni sem ættu forgang í tveimur heimaskólum. Því telur ráðið nauðsynlegt að settar verði reglur um hvernig staðið verði að kynningum á valkostunum fyrir nemendum, hvenær val þurfi að liggja fyrir o.s.frv. Ráðið telur að í slíkum reglum ætti að vera ákvæði um að þessi valkostur standi nemendum til boða við upphaf 8. bekkjar en ekki síðar.

 

Undir liðnum önnur má var rætt um nýafstaðna árshátíð nemenda sem þótti takast afar vel.

Fundi slitið 16:00