Heimanám

Heimanám nemenda

Heimanám hefur margvíslegan tilgang og er mikilvægur þáttur í skólagöngu og námsárangri nemenda. Heimanám er meðal annars til þess fallið

 • að veita nemendum tækifæri til að rifja upp og æfa það sem þeir hafa lært í skólanum
 • að búa nemendur undir námið í skólanum
 • að þjálfa nemendur í að afla sér þekkingar á eigin spýtur t. d. á bókasöfnum, netinu eða annars staðar
 • að gefa nemendum tækifæri til að “kafa dýpra” í einstök viðfangsefni en tækifæri er til í skólanum
 • að þjálfa nemendur í að nýta tímann vel og skipuleggja vinnu sína á eigin spýtur
 • að leiðrétta það sem miður kann að hafa farið í skólanum þann daginn
 • að styrkja tengsl heimila og skóla

Það er óumdeilt að áhugi foreldra og stuðningur við nám barna og unglinga eykur líkur á góðum námsárangri. Til að auðvelda börnum sínum að ná árangri í heimanámi geta foreldrar

 • skapað góða vinnuaðstöðu, bjartan og kyrrlátan stað. Flestum ber saman um að sjónvarp eða tónlist trufli nemendur við nám sitt
 • aðstoðað nemandann við að ákveða sérstakan tíma á degi hverjum til heimanáms. Leggja ber áherslu á að þann tíma sem heimanám stendur eiga önnur viðfangsefni að víkja til hliðar. Mikilvægt er að nægur tími sé ætlaður til verkefnanna til að draga úr líkum á að þau séu unnin í kapphlaupi við tímann. Sumum hentar að skipta heimanáminu niður á stuttar vinnulotur í stað þess að ljúka því öllu í einu
 • talað jákvætt um heimanámið og beint hugmyndum sínum og athugasemdum um það sem þeir telja að betur megi fara til kennara en ekki til nemendanna
 • látið börn sín finna að þeir kunni að meta það þegar þau ná árangri. Verðlaunum er rétt að beita í hófi og ættu foreldrar fremur að leggja áherslu á að menntun hefur gildi í sjálfri sér og hrósa börnum sínum þegar þau leggja sig fram við námið
 Upplýsingar um heimanám er að finna á upplýsingavefnum mentor.is