Fundargerð 27. janúar 2015

Skólaráðsfundur 27.01.2015 kl. 16:00

Mætt eru:  

  • Anna María Birgisdóttir,fulltrúi nemenda
  • Hrönn Bjarnþórsdóttir, fulltrúi almennra starfsmanna
  • Birgitta Ásgrímsdóttir, Björg Jónsdóttir,og Ólöf Finnsdóttir,  fulltrúar foreldra
  • Hilmar Hilmarsson , skólastjóri
  • Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi kennara.

Þetta gerðist:

Gengið er frá texta sem lagt er til að notaður verði við auglýsingu um laust starf skólastjóra.

Fyrir liggur beiðni skóla- og frístundaráðs um umsögn um málefni nemenda í 8.-10. bekk Háaleitisskóla/Hvassaleiti hvað varðar forgang að Réttarholtsskóla. Svohljóðandi umsögn var samþykkt samhljóða:

„Síðan haustið 2012 hafa nemendur sem lokið hafa 7. bekk í Háaleitisskóla/Hvassaleiti átt val um hvort þeir settust í 8. bekk Háaleitisskóla/Álftamýri eða Réttarholtsskóla. Í umsögn skólaráðs Réttarholtsskóla frá 22. mars 2011 um tillögu í þessa veru segir m.a.: Skólaráð Réttarholtsskóla telur þá hugmynd að unglingar í núverandi Hvassaleitisskóla eigi val um Réttarholtsskóla eða Álftamýrarskóla vel framkvæmanlega. Skólaráðið vill þó taka fram, að fari svo að allir nemendur Hvassaleitisskóla velji Réttarholtsskóla, kunna að skapast þrengsli í skólanum á einhverjum tímapunkti. Hér yrði þó trauðla um óyfirstíganlegan vanda að ræða.

Skemmst er frá því að segja að þau ár sem liðin eru frá því að regla þessi öðlaðist gildi hefur yfirgnæfandi meirihluti umræddra nemenda valið Réttarholtsskóla. Til að mæta auknum nemendafjölda hefur nýtanlegum kennslustofum verið fjölgað með tilfærslu milliveggja og sameiningu námsvers og upplýsingavers á einum stað. Við þetta hefur almennum kennslustofum fjölgað um tvær. Frekari möguleikar til fjölgunar kennslustofa eru ekki fyrir hendi og miðað við núverandi nemendafjölda í Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla og Háaleitisskóla/Hvassaleiti blasir við að óþægilega þröngt verður um skólastarf  í Réttarholtsskola fari svo að allir nemendur þessara þriggja skóla haldi áfram að sækjast eftir skólavist hér. Bekkjardeildir verða þá 5 í öllum árgöngu, 15 samtals og fleiri bekkjum verður ekki komið fyrir í núverandi húsnæði. Við þessar aðstæður eru sveigjanleika við skipulagningu skólastarfs vissulega settar nokkrar skorður.“

Ennfremur var samþykkt með sex atkvæðum svohljóðandi umsögn um tillögu Sjálfstæðisflokksins um ótímabundna framlengingu forgangs nemenda úr Háaleitisskóla/Hvassaleiti inn í Réttarholtsskóla:

„Skólaráð Réttarholtsskóla varar við því að jafnræðisregla verði brotin með þeim hætti að hópi nemenda í borginni verði veitt meiri réttindi en öðrum hvað val um skólavist varðar.“

Birgitta Ásgrímsdóttir skilar séráliti vegna tillögu Sjálfstæðisflokksins, svohljóðandi:

„Mikil óvissa og óöryggi hefur myndast sérstaklega hjá börnum en einnig hjá foreldrum í Háaleitisskóla-Hvassaleiti vegna tímabundins forgangs sem settur var á á sínum tíma, sérstaklega þar sem yfirgnæfandi hluti nemenda hefur kosið að halda áfram í 8-10. bekk í Réttarholtsskóla. Mikilvægt er að friður myndist í skólasamfélagi Háaleitis starfstöðvarinnar. Að nemendur þar hafi vissu og öryggi um framtíð sína á meðan þau eru í grunnskóla og að ekki komi aftur upp sú staða sem er í dag og einkennist af ósátt, óöryggi og áhyggjum barna og foreldra Háaleitisskóla-Hvassaleiti. Ég styð því tillögu Sjálfstæðisflokksins um að framlengja forgang þessara barna að Réttarholtsskóla ótímabundið.“

Fundi slitið kl. 17:00

Bryndís Haraldsdóttir, fundarritari