Skýrsla stjórnar 2016 - 2017

Skýrsla stjórnar Foreldrafélags Réttarholtsskóla

Skólaárið 2016-2017

Ný 19 manna stjórn var kjörin á aðalfundi Foreldrafélagsins sem haldinn var þann 13. september 2016 og skipti hún með sér verkum á fyrsta fundi sínum þann 5. október. Stjórnina skipuðu:

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir sem skiptu með sér verkum formanns. Helgi Hjartarson var varaformaður, Áslaug Björgvinsdóttir  ritari og Harpa Ingvadóttir gjaldkeri. Meðstjórnendur voru Áslaug Heiða Pálsdóttir, Bryndís Kristjánsdóttir, Brynja Ólafsdóttir, Erla Ólafsdóttir, Helga Gunnarsdóttir, Helga Kristinsdóttir, Jóhanna Leifsdóttir, Kristín Skúladóttir, Magnea Lilja Þorgeirsdóttir, Rósa Björg Óladóttir, Sigríður Hermannsdóttir, Sonja Chan, Tinna Traustadóttir og Unnur Ágústsdóttir. Linda Heiðarsdóttir aðstoðarskólastjóri sat einnig fundi stjórnar.

Foreldrafélagið stóð fyrir fjölbreyttri dagskrá síðastliðinn skólavetur. 3. nóvember var blásið til hinna árlegu örnámskeiða þar sem boðið var upp á fjölbreytta fræðslu í knöppu formi fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra. Mætingin var með dræmara móti þetta árið sem rakið var m.a. til aðdráttarafls Miðnætursprengju Kringlunni þennan sama dag.

17. nóvember stóð félagið fyrir fyrirlestri með feðginunum Selmu Björk og Hermanni Jónssyni.  Fyrirlesturinn var tvískiptur – annars vegar ræddi Selma við nemendur um eineltið sem hún lenti í sem barn og unglingur og sagði frá því hvernig hún vann úr þeirri reynslu. Sama kvöld og Selma hitti krakkana ræddi Hermann við foreldra um hvernig hann hefur markvisst byggt Selmu upp og kennt henni að takast á við eineltið á einstakan hátt.

Foreldrafélagið lét skólamálin sig varða og 2. desember sendi það frá sér ályktun vegna uppsagna kennara þar sem áhyggjum af ástandinu var lýst en um leið stuðningi við baráttu kennara. Sú ályktun var send borgaryfirvöldum og til fjölmiðla sem einhverjir gerðu henni skil.

Á aðventunni færði foreldrafélagið kennurum og starfsfólki skólans jólaglaðning; körfu með góðgæti til að narta í á aðventunni. Eins niðurgreiddi Foreldrafélagið bíóferð nemenda á aðventunni.

Eftir áramót hélt starfið áfram og 22. febrúar hélt Anna Sigurðardóttir sálfræðingur vel sóttan fyrirlestur í Réttó fyrir foreldra undir yfirskriftinni Kvíði barna og foreldrahlutverkið þar sem hún fjallaði um kvíðaraskanir, birtingarmynd þeirra, orsakir og afleiðingar á líf barna.

Þann 15. mars aðstoðuðu foreldrar við þjónustustörf og framreiðslu veitinga á árshátíð nemenda en löng hefð er fyrir því í skólanum að foreldrar þjónusti krakkana þetta kvöld.

Salurinn í Réttó var svo troðfullur þann 5. apríl þegar hið árlega Páskabingó fór fram enda sérlega veglegir vinningar í boði.

Félagið átti einnig samstarf við önnur foreldrafélög í hverfinu. Foreldraþorpið, sem eru samtök foreldrafélaga Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla, Háaleitisskóla, Langholtsskóla, Laugarnesskóla, Laugarlækjarskóla, Vogaskóla og Réttarholtsskóla, stóð fyrir sameiginlegum fræðslufundi 3. maí undir yfirskriftinni "Snjalltækjanotkun barna - hver er staðan og hvert stefnum við?" Fundurinn var haldinn í Laugardalshöll og var gríðarlega vel sóttur

Í lok skólaársins færði foreldrafélagið Réttó gjöf eins og hefð er fyrir. Í ár var gjöfin með veglegra móti því skólinn fékk hitapressu, myndavél og linsu - allt saman græjur sem gagnast í sköpun og starfi krakkanna í skólanum. 

Í haust sendi Foreldraþorpið með Foreldrafélagi Réttó innanborðs áskorun til borgarráðs um að tryggja að í næstu fjárhagsáætlun borgarinnar verði gerðar ráðstafanir til að tryggja skólabörnum í borginni skólagögn án endurgjalds, eins og raunin er í fjölmörgum öðrum sveitarfélögum.

Fjáröflun fyrir ferðir 9. og 10. bekkinga að Laugum í Sælingsdal og í Skagafjörð stendur nú yfir en ákveðið var að bjóða krökkunum að selja gulrætur upp í ferðakostnað. Fyrri hópur krakkanna í 9. bekk er þessa vikuna á Laugum svo fjáröflunin er vissulega með seinni skipunum. Tafirnar skýrast af því að uppskeru gulrótabóndans seinkaði nokkuð þetta haustið, en fjáröflunin á þó engu að síður að koma ferðalöngunum til góða.

Foreldrafélagið gerði tilraun til að halda úti foreldrarölti í tengslum við böll í skólanum síðastliðinn vetur. Það er ekki ofsögum sagt að þátttaka í röltinu hafi verið dræm því illa gekk að manna röltpóstana. Þörf er á því að endurskoða þetta fyrirkomulag eða skipuleggja röltið með öðrum hætti en hefur verið hingað til.

Facebook síða foreldrafélagsins hefur mælst vel fyrir en þar er að finna upplýsingar um það helsta í foreldrastarfinu yfir veturinn. Þá eru fundargerðir stjórnarinnar birtar á heimasíðu Réttarholtsskóla undir flipanum „Foreldrar“.

Áslaug Björgvinsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir voru fulltrúar foreldra í skólaráði. Loks má nefna að fulltrúar Foreldrafélagsins sóttu á síðasta skólaári fundi og námskeið á vegum Samfoks, Foreldraþorpsins og Þjónustumiðstövar Laugardals og Háaleitis.  

 

Reykjavík, 21. september 2017

f.h. stjórnar Foreldrafélags Réttarholtsskóla

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn.