Skýrsla stjórnar 2017 - 2018

Skýrsla stjórnar Foreldrafélags Réttarholtsskóla

Skólaárið 2017-2018

Ný 26 manna stjórn var kjörin á aðalfundi Foreldrafélagsins sem haldinn var þann 21. september 2017 og skipti hún með sér verkum á fyrsta fundi sínum þann 3. október. Stjórnina skipuðu:

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir sem skiptu með sér verkum formanns. Guðbjörg Hermannsdóttir var varaformaður, Brynja Ólafsdóttir  ritari og Erla Ólafsdóttir gjaldkeri. Meðstjórnendur voru Andrea Bergmann, Arna E. Karlsdóttir, Áslaug Björgvinsdóttir, Áslaug Heiða Pálsdóttir, Gígja Magnúsdóttir, Guðrún Gestsdóttir, Guðrún Kristín Svavarsdóttir, Gunnhildur Lilja Sigmarsdóttir, Halldóra Traustadóttir, Harpa M. Örlygsdóttir, Hildur Björk Kristjánsdóttir, Íris Elfa Þorkelsdóttir, Jóhann Þorláksson, Kristín Skúladóttir, Magnea Huld Aradóttir, Nanna Guðbergsdóttir, Rósa Björg Óladóttir, Ruth Elfarsdóttir, Sigríður Hermannsdóttir, Sonja Chan og Vilhjálmur Ómar Sverrisson. Linda Heiðarsdóttir aðstoðarskólastjóri sat einnig fundi stjórnar.

Foreldrafélagið stóð fyrir fjölbreyttri dagskrá síðastliðinn skólavetur. Í september stóð Foreldrafélagið undir stjórn Brynju og Erlu Ólafsdætra fyrir fjáröflun fyrir 9.-10. bekk þar sem boðið var upp á sölu á gulrótum vegna skólaferðalaga 9. og 10. bekkjar.  Í október var svo aftur boðið upp á fjáröflun (gulrætur og sprittkerti) fyrir 8. og 9. bekk vegna ferða nú í haust.

Foreldraþorpið, sem Foreldrafélag Réttó er aðili að ásamt foreldrafélögum grunnskóla í Laugardal og Háaleiti (foreldrafélög Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla, Háaleitisskóla, Langholtsskóla, Laugarnesskóla, Laugarlækjarskóla, Vogaskóla og Réttarholtsskóla), stóð fyrir fræðslufundi fyrir foreldra í Laugardalshöll þann 11. október undir yfirskriftinni „Kveðjum kvíðann.“ Fundurinn var mjög vel sóttur.

Þann 1. nóvember var blásið til hinna árlegu örnámskeiða Foreldrafélags Réttó þar sem boðið var upp á fjölbreytta fræðslu í knöppu formi fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra. Sá háttur var hafður á að Skrekksatriði Réttó var sýnt í upphafi og síðan hófust örnámskeiðin og stóðu í 90 mín. Nemendafélag Réttó stóð fyrir veitingasölu, seldi pizzur og gos.  Mætingin var með dræmara móti annað árið í röð.

Á aðventunni færði foreldrafélagið kennurum og starfsfólki skólans jólaglaðning; körfu með góðgæti til að narta í á aðventunni. Eins niðurgreiddi Foreldrafélagið bíóferð nemenda á aðventunni.

Eftir áramót hélt starfið áfram og þann 1. mars flutti Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur fyrirlestur á vegum Foreldrafélagsins um samfélagsmiðla og netnotkun/netfíkn. Fyrirlesturinn var tvískiptur – annars vegar ræddi Eyjólfur Örn við nemendur á skólatíma og sama kvöld flutti hann fyrirlestur fyrir foreldra.

Þann 14. mars aðstoðuðu foreldrar við þjónustustörf og framreiðslu veitinga á árshátíð nemenda en löng hefð er fyrir því í skólanum að foreldrar þjónusti krakkana þetta kvöld.

Salurinn í Réttó var svo troðfullur þann 20. mars þegar hið árlega páskabingó fór fram enda sérlega veglegir vinningar í boði.

Foreldraþorpið stóð svo fyrir öðrum fyrirlestri í Laugardalshöll þann 24. apríl undir yfirskriftin „Eflum börnin okkar“.  Sá fyrirlestur var einnig mjög vel sóttur.

Í lok skólaársins færði Foreldrafélagið Réttó gjöf eins og hefð er fyrir. Í ár var gjöfin með veglegra móti því skólinn fékk 500 bingóspjöld og tvær vídeóupptökuvélar - allt saman græjur sem gagnast í leik og starfi krakkanna í skólanum. 

Við útskrift nemenda 10. bekkjar þann 6. júní kvaddi Sigríður Sigurjónsdóttir, annar formanna félagsins, sér hljóðs til að kveðja Jón Pétur Zimsen, fyrrverandi skólastjóra, og þakka honum vel unnin störf í þágu nemenda og skólans undanfarin 20 ár. Foreldrafélagið færði Jóni Pétri einnig smá glaðning við starfslokin.

Foreldrafélagið hélt úti foreldrarölti í tengslum við böll í skólanum síðastliðinn vetur og stýrði Magnea Huld Aradóttir því af miklum myndugleika. 

Facebook síða foreldrafélagsins hefur mælst vel fyrir en þar er að finna upplýsingar um það helsta í foreldrastarfinu yfir veturinn. Þá eru fundargerðir stjórnarinnar birtar á heimasíðu Réttarholtsskóla undir flipanum „Foreldrar“.

Sigríður Sigurjónsdóttir og Guðrún Kristín Svavarsdóttir sátu í skólaráði Réttó skólaárið 2017-2018, varamaður þeirra var Hildur Björk Kristjánsdóttir. Loks má nefna að fulltrúar Foreldrafélagsins sóttu á síðasta skólaári fundi og námskeið á vegum Samfoks, Foreldraþorpsins (fulltrúi okkar í stjórn er Hildur Björk Kristjánsdóttir) og Þjónustumiðstövar Laugardals og Háaleitis.  

Í maí bárust félaginu þau skemmtilegu tíðindi að stjórn Foreldrafélags Réttó var tilnefnd til foreldraverðlauna Heimilis og skóla fyrir störf í þágu nemenda og foreldra. Stjórnin er mjög stolt af því að hafa verið tilnefnd fyrir starf sitt.

Undirbúningur fyrir fjáröflun fyrir ferðir 9. og 10. bekkinga að Laugum í Sælingsdal og í Skagafjörð stendur nú yfir en ákveðið hefur verið að bjóða krökkunum að selja gulrætur og endurvinnanlega tannbursta upp í ferðakostnað. Fjáröflunin verður líklega með seinni skipunum en tafirnar skýrast af því að uppskeru gulrótabóndans seinkaði nokkuð þetta haustið, en fjáröflunin á þó engu að síður að koma ferðalöngunum til góða.

 

Reykjavík, 12. september 2018

f.h. stjórnar Foreldrafélags Réttarholtsskóla

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn.