Lestraráætlun

Lestraráætlun

Líkja má lestri við íþrótt.  Nemendur hafa fengið kennslu í lestraríþróttinni á unga aldri og lært tæknina.  Mjög misjafnt er hvaða þjálfun þeir hafa síðan fengið og fer það eftir skólum, kennurum, heimilum og áhugamálum. Hætt er við að margir hafi fengið of litla þjálfun og stundum hafi henni verið hætt of snemma. Góð lestrarkunnátta er afar mikilvæg í öllu námi og góð þjálfun á unglingsaldri leggur mikilvægan grunn fyrir nám á framhaldsskólastigi.

Í Réttarholtsskóla er skimunarpróf, GRP 14h, lagt fyrir alla nemendur í 9. bekk við upphaf skólaárs. Með skimunarprófinu er reynt að finna þá nemendur sem kunna að eiga við einhvers konar lestrarörðugleika að stríða. En miklu skiptir að greina lestrarvanda áður en nám á framhaldsskólastigi hefst.

Nemendum er boðin þátttaka í lestrar- og námstækninámskeiði að hausti í 9. og 10. bekk. Þeir nemendur sem lesa hægt eru sérstaklega hvattir til að nýta sér námskeiðið.
Markmiðið með námskeiðinu er að auka lestrarhraða nemenda, bæta lesskilning og kenna hagnýt vinnubrögð í námi. Á námskeiðinu er notað kennsluefnið Lestu nú eftir Fjölni Ásbjörnsson og Guðna Kolbeinsson, og ýmis námstækniverkefni.

Mikilvægt er að þjálfunin haldi áfram að loknu námskeiðinu til að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur.