Viðbrögð við ofbeldi

Áætlun Réttarholtsskóla um viðbrögð við líkamsárásum         

Áætlun þessi er í tveimur hlutum A og B.

A: Viðbrögð í skólanum

Geri einstaklingur í skólanum sig sekan um árás á annan nemanda eða starfsmann eru viðbrögð skólans sem hér segir:

 • Skólastjórnendur og umsjónarkennarar þeirra nemenda sem málinu tengjast mynda teymi sem vinnur samkvæmt þessari áætlun.
 • Ofbeldisþolandi fær aðhlynningu og aðstandendur hans/hennar eru kallaðir í skólann. 
 • Allt er gert sem hægt er til að skapa sem skýrasta og sannasta mynd af málsatvikum
 • Lögregla er kölluð á staðinn ef ástæða þykir til. Nauðsynlegar skýrslur gerðar.
 • Árásaraðili og foreldrar hans eru kallaðir sem allra fyrst til skólastjóra þar sem farið er yfir málið.
 • Máli árásaraðila er vísað til nemendverndarráðs - nemendaverndarráð tekur ákvörðun um tilkynningu til Barnaverndar.
 • Starfsfólk og e. t. v. nemendur skólans upplýstir um málið.
 • Ofbeldisþolanda boðinn stuðningur hjá hjúkrunarfræðingi, námsráðgjafa eða sálfræðingi þjónustumiðstöðvar.
 • Ákvarðanir eru teknar um áframhaldandi skólagöngu árásaraðila sem og hugsanleg viðurlög. Viðurlög geta falist í útilokun frá tilteknum viðburðum á vegum skólans, ferðalögum, skemmtunum o.s.frv. sbr. skólareglur. Í öllum tilvikum fer viðkoamndi nemandi í viðtal (viðtöl) á þjónustumiðstöð (sbr. B-lið áætlunarinnar).
 • Áætlun gerð um aukið eftirlit eða aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir sem nauðsynlegar teljast.
 • Árásaraðili og þolandi hittast ásamt foreldrum sínum hjá skólastjóra til að afgreiða málin, áður en gerandi byrjar aftur í skólanum.
 • Geri starfsmaður við skólann sig sekan um líkamlegt ofbeldi gagnvart nemandum eða samstarfsfólki er málsmeðferð í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og stéttarfélaga um réttindi og skyldur starfsmanna.


B: Samvinna við Þjónusutmiðstöð Laugardals og Háaleitis.

Það er markmið þessarar áætlunar að auðvelda skólanum að bregðast með markvissum hætti við ofbeldisverkum þar sem gætt sé hagsmuna allra málsaðila. Þeir hagsmunir eru í flestum tilvikum afar ólíkir. Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis er tilbúin til að veita hlutaðeigandi nemendum og fjölskyldum þeirra stuðning og ráðgjöf í kjölfar slíkra atburða. Samvinna skólans og Þjónustumiðstöðvarinnar er viðbót við þá vinnu sem fram fer í skólanum og er á ábyrgð hans.

Ávallt er haft samráð við foreldra nemenda þegar unnið er samkvæmt áætlun þessari og tryggir skólinn slíkt samráð.

Aðgerðir samkvæmt áætluninni:

 • Ef nemandi í Réttarholtsskóla verður uppvís að líkamsárás eða líkamsmeiðingum sem skólinn metur alvarlegar getur skólinn vísað viðkomandi í viðtöl hjá félagsráðgjafa hjá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis.
 • Viðtölin hefjast strax í kjölfar árásarinnar og sækir nemandinn ekki skóla á meðan á þeim stendur. Slíkt tímabil getur lengst verið ein vika, sbr. reglugerð 270/2000. Viðtölin fara fram á Þjónustumiðstöðinni að lágmarki einu sinni á dag á meðan nemandi sækir ekki skóla. Foreldrar mæta með nemandanum í fyrsta viðtalið. Ef misbrestur verður á mætingum lætur félagsráðgjafi skólastjórnendur vita.
 • Strax í kjölfar viðtalanna boðar félgasráðgjafi Þjónustumiðstöðvar hlutaðeigandi aðila, þ.e. skólastjórnendur, foreldra og nemanda á fund í skólanum þar sem staðan er metin og eftirfylgd ákveðin.
 • Sé það mat skólans og Þjónustumiðstöðvar að nemandi hafi þörf fyrir stuðningsviðtöl eftir að hann hefur skólagöngu að nýju, eru þau skipulögð í samvinnu við hann og foreldra hans.